Mitt Provence

Eftir nær tveggja áratuga viðveru hér í efra-Provence (Haut Provence des Alpes) langar mig til að veita gestum mínum örlitla innsýn í nokkra áhugaverða staði hér í nágrenninu. Þó fyrr hefði verið, en betra er seint en aldrei. Alla staðina er hægt að heimsækja í dagsferð frá Esparron de Verdon og gjarnan fleiri en einn í hverri.

Provence skiptist í þrjú meginhéruð þ.e. Provence, Haut-Provence og Provence Maritime, sem nær m.a. yfir það sem útlendingar kalla Rivereu en heimamenn Coté Azur.Það sem hér fer á eftir eru mínar ráðleggingar til þeirra sem heimsækja svæðið en ég mæli auk þess sterklega með þeim ágætu grænu Michelinbókum sem fjalla um þessi héruð (3 bækur).

Þetta er „mitt Provence“. Tveir vinir mínir sem dvalið hafa langdvölum í París hafa sýnt mér „sína París“ sem ég hef haft gagn og gaman af enda þótt það sé ekki „mín París“ en ég hef einnig dvalið lengi í þeirri borg. Ég vona að þið hafið gaman af þessum lestri og finnið ykkur svo ykkar Provence.

Á þessu svæði öllu sér víða merki Cesars og Rómverja með súlubrotum sem leifum af fornum leikhúsum, vatnleiðslum á háum súlum o.s.frv. Þegar Cesar sleppir sjást merki Napoleons ekki síst í fjölmörgum trjágöngum platantrjáa meðfram vegum. Vörubílstjóri, sem var skjólstæðingur múrarameistarans míns Alains spurði mig þegar ég fór með honum vorið 2000 að sækja möl vegna sundlaugargerðar okkar hvort ég vissi hvers vegna þessi tré væru víða með fram vegum og sagði mér svo að Napoleon hefði látið planta þeim fyrir 200 árum til að mynda skugga fyrir póstvagna ríkisins.

Þorpið okkar

Þorpið Esparron de Verdon er agnarsmátt þorp sem hýsir um 350 sálir yfir vetrartímann en meir en tuttugufaldan þann fjölda í júlí-ágúst. Þá halda heimamenn sig að mestu inni við og sinna gestum sínum. Þorpið er eins og þúsundir annarra þorpa í Frakklandi byggt í kringum Kastalann.

Kjarni þess er byggður 6 fjölskyldum, sem eru hinir raunverulegu „esparronais“ auk greifans. Kastalinn mun byggður á 13. öld um svipað leyti og Snorri var að skrifa sögur sínar á Íslandi. Monsjör Bernard Castellane núverandi greifi sem kominn er í beinan karlegg sagði mér að forfaðir sinn hefði farið í krossferð að herja á aröbum og lært þar að byggja brýr og byggt eina yfir gljúfrin skammt frá mynni þeirra þar sem Verdon áin nú rennur í Lac d‘Esparron. Á þeim tíma eins og raunar einnig í nútímanum tíðkaðist að flytja sauðfé til sumarbeitar upp í suður Alpana allt frá Arles og Langedoc svæðinu.

Mér er ógleymanlegt í júní árið 2000 þegar við komum til þess að fara á laugardagsmarkaðinn í Riez og þorpið var bókstaflega fullt af rollum og fullum fjárhirðum. Það kallast „Transhumane“ þegar fjárhirðarnir fara með hjarðir sínar uppí Alpana og gera sér glaðan dag á leiðinni áður en einvera fjallanna tekur við. Þá var svo sannarlega glatt á hjalla!  Brú yfir Verdon ána stytti þá vegalend verulega og var því hægt að taka brúartoll af hverri rollu sem yfir fór. Þannig varð greifinn ríkur greifi og átti um tíma nokkra kastala hér á svæðinu. Nú er greifinn aftur ríkur en kannski fyrst og fremst vegna hagstæðs kvonfangs við skoska aðalsætt! Brúin er nú á um 20 metra dýpi eftir að vatnið var búið til sem uppistöðulón raforkuvirkjunar á sjöunda áratug síðustu aldar! Við virkjunina hækkaði vatnsborð Verdon árinnar meir en 20 metra og Esparron vatn varð til.

Bernard er alúðlegur maður sem talar góða ensku, stór og stæðilegur með stórt nef en lítið hár en kona hans Karlotta-Anne er lítil og grönn og svo föl að hún er nánast hvít en yndisleg manneskja. Þau hjón reka lúxusgistiheimili í kastalanum en sýna húsakynnin gjarnan vinum mínum ef áhugi er fyrir hendi. Í kastalanum hafa sendiherrar Íslands gist þegar þeir komu í heimsóknir í tilefni Tónlistarhátíða þeirra sem við héldum hér um árabil. Er þá gert ráð fyrir að greidd sé smáupphæð (10-20€) sem framlag í patrimoníusjóðinn.

Það er fyllilega þess virði að fara upp í turninn og sjá inní þessa fornu veröld okkur nútímamönnum ókunnuga. Gaman er að spyrja greifann um hvar sé „Oubliettið“ en það var dýflissa án hurðar og aðeins með gati að ofan þar sem kastalaherrann gat látið óæskilegar persónur hverfa og deyja drottni sínum. Þessi vistarvera var í mörgum kastölum í Frans en alls ekki öllum og vitanlega með öllu ólögleg!  Við komumst að þessu við skoðun á kastalanum í Uzet, en þar hafði verið brotið hurðargat á oubliettið og innréttuð vínbúð fyrir framleiðslu kastalans af eðalvínum!

Annað heimsóknar virði í þorpinu er minjasafnið sem er einkaframtak eins „eldri borgara“. Mér er minnistæð heimsókn mín með vinkonu minni Þóru Kristjánsdóttur listfræðingi en enda þótt Þóra, sem vann sinn starfsferil á Þjóðminjasafni Íslands sé ekki mikil frönskukona þá áttu þau safnstjórinn langar og áhugaverðar samræður um hve margir af gripum safnsins líktust hliðstæðum sínum í safninu á Íslandi! Gamla þorpið með kirkju sem státar af forkunnar fagurri Campanellu er svo umhverfis kastalann og „nýja þorpið“ frá síðustu tveim öldum er svo það sem nú kallast þorpið og síðan er nýja nýja þorpið, sem byggðist eftir stíflugerð og myndun vatnsins, sem nú er aðalaðdráttarafl þorpsins. Þvottalaug er í kjarna „nýja þorpsins“ með afbragðsdrykkjarvatni, en vatnsuppspretta þorpsins gefur Gvendarbrunnum ekkert eftir og drykkjarvatn frábært.

Campanellur nefnast víravirki sem skreyta flesta kirkjuturna í Provence og eru stolt um járnsmíðakúnst hvers þorps. Þær eru ætíð smíðaðar í þorpinu og engin þeirra eins. Vinur minn Michel á bók með 300 fegurstu Campanellum í Provence og sögu hverrar þeirra.

Veitingastaðir

Veitingastaðir eru þrír í þorpinu, þar af tveir sem rísa undir nafni. Annar heitir því yfirlætislausa nafni Bistró og hefur nýverið skipt um áhöfn og vonandi mun þeim ganga vel. Þar er hægt að fá ágætan krækling með frönskum auk alls annars. Hinn ber stærra nafn eða Paris-London og er eigandinn Corsíkumaður vel menntaður kokkur og fyrrum eiginkona hans sem er frá S-Afríku af hollenskum ættum. Þar er ágætis matur jafnt steik, fiskur og pizzur og ekki dýr. Le Fourcet hefur verið breytt í skyndibitastað. Að auki er svo í kjarna  nýja þorpsins bakarí, kjörbúð og tóbaksbúð.

Boule-vellir

Boule-vellir (framb, búll) eru þrír þar af einn aðeins notaður yfir háveturinn fyrir framan ráðhúsið og póstinn. Pedanque eins og það heitir en alltaf kallað búll er íþrótt provensbúa og rétt að taka það sérstaklega fram að alls ekki má gantast með að þetta sé ómerkilegur kúluleikur. Þeir æfa stíft og mót eru haldin reglulega bæði innan sveitar og utan. Búllvellirnir tveir eru fyrir neðan húsið hjá mér s.s. í hundrað metra fjarlægð svo ég fylgist oft með úr fjarlægð og stöku sinnum tek ég þátt en kann lítið fyrir mér. Það er nauðsynlegt að prófa þennan leik og kúlur eru fyrir hendi hjá okkur. Golfarar segja að það sé bannað að yrða á menn á „greeni“ og sama gildir um búll þú talar ekki við mann sem er að fara að kasta kúlu í búlli.

Lac d’Esparron

Esparronvatn hefur mikið aðdráttarafl og er notalega heitt mikinn hluta ársins og mikið nýtt til sunds. Það hefur fjölbreytt lífríki. Einar 15 tegundir fiska lifa í vatninu auk alls kyns krabbadýra, stórvaxinna öðuskelja og meinlausra snáka. Veiðimenn eru þolinmóðir með stengur sínar en ekki hef ég oft séð bitið á og sjálfur hef ég aldrei rennt til fiskjar og var þó bitinn stangveiðimaður á Íslandi. 

Til bátsferða standa til boða rafmagnsbátar, hjólabátar, kanóar og kajakkar auk „Perlunnar“ sem er 50 manna rafdrifinn túristabátur sem fer í klukkutíma útsýnisferðir um vatnið og gljúfrin nokkrum sinnum á dag. Auk þess eru kappróðrarbátar fyrir þá sem þá íþrótt kunna og stundum við það mikið einkum utan sumarleyfistímans.

Ég mæli sérstaklega með því að leigja sér kanó og róa inn í gljúfrin. Um kílómetra eða tæplega það inní gljúfrunum er smávík og þar um 50 metra upp í berginu er gamall hellir, sem hefur verið mannabústaður í árþúsundir. Hann er þess virði að skoða og vita fáir af.

Hestaleigur

Hestaleigur eru einnig fyrir hendi og útreiðartúrar vinsælir. Ég hef tekið tvo af gömlum félögum mínum úr minni hestamennsku á Íslandi í útreiðartúra hér og gekk það bærilega amk. þar til að félagi minn og frábær hestamaður dróst aftur úr og vældi skyndilega „Ármann: hesturinn er að hrekkja mig“ Þá prjónaði hesturinn í sífellu og var ekki sáttur við þá stjórntækni sem gengur við íslenska hesta. Það er samt reynslunnar virði, en búist ekki við að fá þýðan tölthest!

Gönguleiðir

Ég stunda mikið gönguferðir og eru einkum þrjár leiðir sem ég fer. Oftast litla hringinn, sem er umhverfis þorpið og tekur um hálftíma. Stundum stóra hringinn meðfram vatninu sem varir í nær tvo tíma og stöku sinnum uppá hæðina sem er um hundrað metra hæðarhækkun og gefur manni útsýni vítt yfir nágrennið. Þaðan er einnig hægt að lengja ferðina allt yfir í gamla Quinson en það eru rústir frá því að íbúar Quinson flúðu árásir Mára á 12 öld og fluttu þorp sitt með kirkju og tilbehör upp í klettana.

Ræktun og matarhefðir

Ræktun er mikil. Ávextir hvers konar, tómatar af fjölmörgum gerðum, olívur, lavender og alls kyns grænmeti. Gull Efra-Provence er þó truffle, þessir dökkbrúnu sveppir sem vaxa neðanjarðar undir sýktum eikartrjám! Í því sambandi verð ég að geta um vini mína Stanis og Míreyju (Mirelle) Matheron.

Stanis varð bæjarstjóri árið 2000 þegar við hófum undirbúning tónlistarhátíða. Stanis er innfæddur Esparroni, þéttur á velli ekki hár, svarthærður og snareygur með meðfætt kímið ánægjubros, enda hefur hann fyllstu ástæðu til að vera ánægður með sig. Þau hjón hafa um árabil boðið okkur í matarboð á vetrum og þá er trufflið alltaf hluti máltíðarinnar. Einhverju sinni kom Stanis og var með lófana kreppta. Þegar hann opnaði lófana og sagði með ómældu stolti „Hafið þið séð hann þennan?“ og um leið brosti hann sínu provensalska brosi og sleikti út um. Það var þá 400 gramma trufflusveppur sem hann hafði fundið hjá sér. Grammið er selt á 2-3 evrur. Þetta er eina skiptið sem ég hef séð a.m.k. 120.000 króna svepp! Já Frakkar elska sundurgerð í mat og máltíð er ætíð margréttuð. Það er ekki eins og hjá Íslendingum grautur og soðning sem nú er oftast skipt út fyrir pizzu, heldur er byrjað með mörgum smáréttum með kampavíni og svo 5 réttir við sjálft borðhaldið, þar sem 7-10 mismunandi ostategundir mynda ætíð einn rétt eftir aðalréttinn oft snætt með grænu salati á undan eftirrétti sem oft eru tveir hver á fætur öðrum. Menn fara mettir að sofa upp úr miðnætti og verður ekki meint af!

Eitt sinn vorum við boðin í sunnudagshádegismat til góðvinar Stanisar sem heitir Roger og er einn stærsti sauðfjárbóndinn á svæðinu. Roger er uppeldisfélagi og sessunautur Stanisar úr grunnskóla en tók við búi föður síns í stað þess að fara í framhaldsnám eins og Stanis, sem er fyrrverandi bankastjóri. Hann er maður snaggaralegur og ber gjarnan reimar að amerískum sið til að skreyta sig um hálsinn. Hann hefur um 500 fjár og tíu fjárhirða. Sjálfur talar hann helst próvesölsku og áttum við Gerhard (annar vinur og bæjarstjóri eftir Stanis) í miklum erfiðleikum að skilja hann. Í Frakklandi eru fjölmargar mállískur sem eru verulega frábrugðnar frönsku. Í Provence er enn kennd provenskalska sem valfag í stað ensku og gengur þeim greinilega betur að læra hana en enskuna, sem fáir hafa á valdi sínu. Roger bauð að sjálfsögðu upp á eðalkampavín fyrir matinn en sjálfur vildi hann aðeins pastís að próvesölskum sið. Ekki man ég gjörla máltíðina nema hvað aðalréttir voru þrír hver á fætur öðrum allt lambakjöt og átti ég í miklum vandræðum með að verða mér ekki til skammar því magamál mitt er takmarkað meir en gengur og gerist.

Ég lýk hér umfjöllun minni um þorpið mitt með því að minnast aðeins á húsakynni. Þau eru keimlík og yfirleitt er hátt til lofts og vítt til veggja. Arinn skipar ávallt höfuðsess í hverri stofu enda landið vaxið eikarskógum, sem er helsta upphitun yfir vetrartímann. Það má segja að innviðir húsa líkist íbúunum, grófir en hlýlegir.