Esparron de Verdon

Falinn geimsteinn í hjarta Efri-Provence

Esparron de Verdon er í 350 m hæð og stendur við vatn sem ber heiti þorpsins, Lac d’Esparron. Vatnið var gert af franskri Landsvirkjun seint á sjöunda áratug síðustu aldar og hefur gerbreytt ásýnd þorpsins til hins betra. Sjálft þorpið byggðist eins og flest frönsk þorp í kringum kastala sem reistur var á 13. öld, á svipuðum tíma og Snorri Sturluson skrifaði Eddu í Reykholti.

Helsta tekjulind kastalaherrans var brúartollur af hverri kind en vaninn var og er enn að reka allt fé til fjalla upp í Alpana á vorin og svo aftur til byggða á haustin. Fjárhirðar fylgja raunar hjörðinni allt árið. Nú er þessi brú á 30 metra dýpi í gljúfrinu  en Verdon-gljúfrið og vatnið eru eftirsótt til alls kyns siglinga og sunds. Vélknúnir bátar eru bannaðir nema þeir sem knúnir eru rafmagni.  Hægt er að fá margar gerðir báta leigða f. sanngjarnt verð. Hestaleiga er einnig á staðnum og reiðskóli.

Hér er himininn blár og alltaf grænt

Þorpið er agnarlítið en státar þó af þremur ágætum veitingastöðum, búð, bakaríi og „alt mugligt“-verslun auk minjasafns, keramik-verkstæðis og vinnustofum listmálara að ógleymdu góðu félagsheimili þar sem oft eru haldin böll og aðrar uppákomur.

Þorpslífinu hér er best lýst með orðinu friðsæld að því undanteknu að í júlí og ágúst koma kannski fullmargir gestir en þá er líka líf og fjör og þorpið iðar af lífi. Segja má að hjarta þorpsins slái í tveimur samliggjandi boules-völlum en þar spila þorpsbúar og gestir pedanque eða einfaldlega “boules” daglega nema þegar rignir (sem er u.þ.b. 15 sinnum á ári).

Esparron de Verdon er lítill, falinn gimsteinn í hjarta efra Provence

Landslag í Efra-Provence er mjög sérstætt. Þar skiptast á hásléttur þar sem ræktað er hveiti eða lavender og dalir þar sem ræktaður er vínviður eða ávextir. Jarðvegur er hrjóstrugur en samt er landið allt skógi vaxið, mest sígrænum eikar- og furuskógi. Hér er því alltaf grænt og himinninn nær alltaf blár.

Náttúrufegurðin er mikil og þorpin fjölbreytt og bera ríkulegar menjar, einkum eftir Templar-riddaranna sem hér réðu ríkjum um aldabil. Rómuð náttúrufegurð er ekki síst í Gorges de Verdon sem eru skammt frá.

Sérstaða þessa svæðis

  • Stærstu gljúfur í Evrópu
  • Reiðskólar og hestaleigur á hverju strái
  • Námskeið í matreiðslu á bónabæjum
  • Veiðileyfi á vægu verði fyrir lax og silung (ræktaðan)
  • Siglingar af öllu tagi
  • Göngu- og hjólreiðaferðir með óviðjafnanlegu útsýni
  • Stutt í skíðastaði á veturna og á ströndina á sumri
  • Góður golfvöllur er í um hálftíma akstursfjarlægð í Pierrevert.

Hafðu samband við Ármann

Hafðu endilega samband við Ármann ef þú hefur einhverjar spurningar. Það næst í hann í síma: +1 (954) 456 6789 eða með tölvupósti á armann@festival.is